Velkomin

Steinn með spjaldi

Á vormánuðum árið 2020 fékk leikskólinn Gimli styrk frá Nýsköpunar– og þróunarsjóði Reykjanesbæjar fyrir verkefnið Jóga og núvitund í vettvangsferðum. Verkefnið fór af stað með nemendum og kennurum skólans þá um haustið. Hugmyndin að verkefninu kviknaði út frá jógastundum sem hafa verið á Gimli frá árinu 2007. Allir nemendur á Gimli fara í skipulagðar jógastundir 1x í viku á sínum kjarna með Sigurbjörgu Eydísi leikskólakennara og jógaleiðbeinanda barna. Þar er iðkuð núvitund, slökun, öndunaræfingar og jógastöður í gegnum sögur og ævintýri.

Þannig fléttast saman hreyfing, núvitund, líkamsvitund og fjölbreytt orðaforðakennsla. Ræktuð er vitund um andlegt og líkamlegt heilbrigði ásamt því að efla einstaklings- og félagsfærni nemanda. Umræður um tilfinningar, sjálfstraut, samkennd, samskipti, umbyrðarlyndi, hjálpsemi og trú á eigin getu. Dyggðir eins og kærleikur, virðing, gleði, vinátta, traust og þakklæti eru hafðar að leiðarljósi.

Tilgangurinn með jóga í vettvangsferðum er að yfirfæra út í náttúruna hluta af því sem nemendur læra í jógastundum inni. Þau læri að tengja jóga og núvitund við umhverfismennt. Við eflum skynfærin okkar með því að hlusta, skoða og snerta. Skoðum og lærum um umhverfið, veðurfar, gróður, fuglana, dýrin, göngum vel um og berum virðingu fyrir náttúrunni. Í upphafi setti Sigurbjörg saman hefti sem innheldur núvitundaræfingar, öndunaræfingar og jógastöður sem kennarar geta stuðst við og unnið með nemendum í vettvangsferðum. Einnig hafa nýjar hugmyndir kviknað hjá kennurum og nemendum úti í náttúrunni og þeim verið bætt við. Þetta eru meðal annars jógastöður sem við höfum búið til út frá því sem við sjáum og upplifum í umhverfinu okkar. Verkefnin í heftinu er hægt að vinna með öllum aldri, einföldum eftir því sem börnin eru yngri.

Hugmyndirnar er hægt að nýta hvar og hvenær sem er. Árstíðir, veðurfar, umhverfi og hugmyndir nemenda gefa alltaf nýja upplifun og skynjun. Í leiðinni eru kennarar meðvitaðir um að efla fjölbreyttan orðaforða hjá nemendum. Í vettvangsferðum er farið á hin ýmsu svæði í nágrenni leikskólans. Má þar nefna gönguleiðina við sjávarsíðuna fyrir aftan Njarðvíkurskóla og svæðið í Njarðvíkurskógi við Grænás. Eitt af markmiðum verkefnisins var að miðla til samfélagsins og finna leið til að vekja áhuga bæjarbúa á núvitund, öndunaræfingum og jógastöðum í náttúrunni. Út frá því kom hugmynd að gefa efnið í heftinu út sem rafbók og einnig að setja skilti á steina með einföldum núvitundaræfingum við sjávarsíðuna fyrir aftan Njarðvíkurskóla og í Njarðvíkurskógi við Grænás. Þau eru fjögur á hvorum stað, með fallegum orðum og hvatningu til bæjarbúa. Að vera í núvitund, staldra við, hugsa inná við, taka eftir umhverfi sínu. Auka hamingju bæjarbúa þegar gengið er úti í náttúrunni. Með QR kóða sem er á skiltunum komast bæjarbúar inn í smáforrit/app sem er efni rafbókarinnar og geta nýtt sér hugmyndir að fjölbreyttum núvitundaræfingum, öndunaræfingum og jógastöðum sem þar eru. Verkefnin styðja við heilsueflandi samfélag, efla hreyfingu og geðrækt.

Að koma verkefni sem þessu af stað, þróa það áfram og halda því gangandi krefst samvinnu, þrautseigju, virkni og áhuga. Fyrir utan frábæru kennarana og nemendurna á Gimli þá eru nokkrir aðilar sem hafa lagt hönd á plóg að gera þetta verkefni að veruleika. Við viljum þakka Kristínu Björk Hallvarðsdóttur fyrir aðstoð við ýmsa tölvuvinnslu, Guðrúnu Sigurðardóttur fyrir ljósmyndatöku, Gunnari Víði fyrir hönnun á skiltunum, Davíð Óskarssyni og Gísla Erni Gíslasyni fyrir hönnun og uppsetningu á smáforritinu sem leiðir okkur inn í öll verkefnin og síðast en ekki síst viljum við þakka Reykjanesbæ fyrir uppsetningu á steinum og skiltum. Nemendur fæddir 2015 sem útskrifuðust frá Gimli 2021 og fjölskyldur þeirra gáfu leikskólanum skiltin. Við erum þeim afar þakklát fyrir stuðninginn. Það er einlæg ósk okkar á Gimli að nemendur, kennarar og aðrir bæjarbúar geti valið sér æfingar úr bókinni til að iðka.

Njótið vel, öðlist hugarró og finnið vellíðan þess að vera hér og nú.

Karen Valdimarsdóttir, leikskólastýra.

Núvitundaræfingar í
vettvangsferðum

Jógastöður í
vettvangsferðum

Öndunaræfingar í
vettvangsferðum

Skemmtileg verkefni